Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1673  —  535. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landi og skógi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, ÖBÍ réttindasamtökum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Landsneti, Landsvirkjun, Vestfjarðastofu, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Landvernd, Vinum íslenskrar náttúru, Náttúrufræðistofnun Íslands, Grænni orku – samstarfsvettvangi um orkuskipti, Samgöngustofu, Skipulagsstofnun og Eldvötnum – samtökum um náttúruvernd í Skaftárhreppi.
    Nefndinni barst 21 umsögn sem er aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis auk minnisblaðs frá innviðaráðuneyti.

Meginefni tillögunnar.
    Landsskipulagsstefna er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál til fimmtán ára sem ráðherra lætur vinna og leggur fyrir Alþingi, sbr. 16. tölul. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Skal í landsskipulagsstefnu felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða og er stefnan útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar og haf- og strandsvæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 10. gr. skipulagslaga.
    Núgildandi landsskipulagsstefna var samþykkt á Alþingi í mars árið 2016 og var sú fyrsta sinnar tegundar. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar byggist bæði á hvítbók og grænbók um skipulagsmál og er unnin á grundvelli skipulagslaga og laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023. Þá var við vinnuna lögð til grundvallar greinargerð sem unnin var af Skipulagsstofnun um stöðu og þróun skipulagsmála á Íslandi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Skipulagsskylda sveitarfélaga.
    Fyrir nefndinni var fjallað um skipulagsvald sveitarfélaga sem og að hvaða leyti landsskipulagsstefna hefur bindandi gildi. Í 4. mgr. 10. gr. skipulagslaga segir að sveitarfélög skuli við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim taka mið af stefnunni og eftir því sem við á samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Telji sveitarstjórn sér ekki bera að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu skal hún gera rökstudda grein fyrir því og skal rökstuðningurinn fylgja með tillögu að skipulagsáætlun þegar hún er send Skipulagsstofnun.
    Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð með tillögunni segir að landsskipulagsstefnu sé fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags. Landsskipulagsstefna hefur einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun. Meiri hlutinn áréttar að landsskipulagsstefna er stefnumarkandi og ekki beinlínis bindandi við gerð skipulagsáætlana, þótt rökstyðja beri ákvörðun um að taka ekki mið af henni.

Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
    Fyrir nefndinni var fjallað um líffræðilega fjölbreytni, sem er eitt lykilviðfangsefna tillögunnar. Snúa áherslur hennar að vernd líffræðilegrar fjölbreytni við skipulagsgerð í þéttbýli, dreifbýli og á miðhálendinu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að líta þyrfti sérstaklega til þess þáttar við skipulagsgerð.
    Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er því fagnað sérstaklega að vernd líffræðilegrar fjölbreytni sé á meðal lykilviðfangsefna tillögunnar. Þá segir jafnframt í umsögninni að stofnunin hafi á fyrri stigum bent á við gerð grænbókar og hvítbókar um skipulagsmál að stefna ætti að því að vinna sérstakar leiðbeiningar um líffræðilega fjölbreytni og skipulag. Undir þetta sjónarmið tekur meiri hlutinn og hvetur til þess að lögð verði áhersla á gerð leiðbeininga um líffræðilega fjölbreytni og skipulag til stuðnings áherslum í landsskipulagsstefnu.
    Meiri hlutinn undirstrikar það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni, að breytt landnotkun hafi áhrif á líffræðilega fjölbreytni og losun gróðurhúsalofttegunda. Þá tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið að tryggja þurfi að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana, hvort sem það er í dreifbýli, þéttbýli, á miðhálendinu eða haf- og strandsvæðum.

Landnotkun á miðhálendi Íslands.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni skal í landsskipulagsstefnu marka stefnu um skipulagsmál á hálendinu, en sú stefna sem nú er sett fram byggist á þeirri stefnu sem sett var með landsskipulagsstefnu 2015–2026. Afmörkun miðhálendis er skilgreind í landsskipulagsstefnu en hún markar það svæði sem stefna um skipulagsmál á miðhálendinu tekur til.
    Nefndin fjallaði um óbyggð víðerni og innviðauppbyggingu á miðhálendinu. Í umsögn Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi komu fram sjónarmið um að óbyggð víðerni verði ekki samtímis vernduð til framtíðar og skorin af ágengum innviðum. Þá benda samtökin auk þess á að stefnu vanti eða áætlun ef farið er yfir þolmörk hálendisins hvað ferðamannastraum varðar og vara við því að vegir um miðhálendið verði gerðir fólksbílafærir. Í umsögn Landverndar segir að óljóst sé hvernig stefnan stuðli að jafnvægi ólíkra ferðamáta og eins hvað sé átt við með innviðauppbyggingu á hálendinu.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að standa vörð um óbyggð víðerni og bendir á að áhersla A.5 í tillögunni miðar að því að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag, svo sem óbyggð víðerni og landslagsheildir. Er þar áhersla lögð á að í skipulagi verði sérkennum miðhálendisins og sérstæðri náttúru þess viðhaldið með áherslu á verndun víðerna og landslagsheilda. Að auki verði þess gætt við skipulagsgerð að mannvirki og umferð skerði víðerni og önnur sérkenni hálendisins sem minnst. Þá bendir nefndin á að aðgerð 6 aðgerðaáætlunar miðar að því að unnið verði að greiningu á ástandi vega á miðhálendinu og að mat verði lagt á mismunandi kosti við þróun samgöngukerfis á því svæði. Meiri hlutinn bendir einnig á að í áherslu B.4 kemur fram að viðhald og frekari uppbygging samgöngukerfisins á miðhálendinu skuli stuðla að góðu aðgengi og jafnvægi milli ólíkra ferðamáta, með orkuskipti að leiðarljósi, sem og að samgöngumannvirki og umferð eigi að hafa lágmarksáhrif á víðerni og óbyggðaupplifun. Meiri hlutinn leggur áherslu á að eitt meginmarkmið með skipulagi um uppbyggingu ferðaþjónustu er að varðveita þau gæði sem ferðaþjónustan byggist á.
    Fyrir nefndinni var fjallað um kortlagningu víðerna, en aðgerð 13 aðgerðaáætlunarinnar snýr að því að þeirri vinnu verði lokið út frá þeim viðmiðum sem sett eru fram í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Meiri hlutinn fagnar því að þeirri vinnu eigi að vera lokið árið 2025 og leggur áherslu á mikilvægi þess að sú aðgerð nái fram að ganga.

Skipulag haf- og strandsvæða.
    Nefndin fjallaði um skipulag haf- og strandsvæða sem er eitt lykilviðfangsefna tillögunnar. Beinast aðgerðir tillögunnar m.a. að því að tryggja öryggi og góðar samgöngur að höfnum, að nýting vistvænna orkuauðlinda verði í sátt við umhverfi, að við skipulag verði líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins viðhaldið með því að standa vörð um vistkerfi og ástand sjávar, að verðmætt landslag verði varðveitt o.fl.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skipulag strandsvæða ætti betur heima á vettvangi sveitarfélaga þar sem það yrði á einni hendi en ekki skipt á milli ríkis og sveitarfélaga.
    Í minnisblaði frá innviðaráðuneyti er á það bent að sveitarfélög fari með skipulagsgerð út að 115 m stórstraumsfjöru. Í 7. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, segir að í landsskipulagsstefnu sé skylt að marka stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum frá netlögum, eins og þau eru skilgreind í 2. tölul. 3. gr. laganna, að ytri mörkum efnahagslögsögu.
    Meiri hlutinn bendir á að skipulagsskylda sveitarfélaga nær að ytri mörkum netlaga í sjó, en utan þeirra er hafsvæði ekki skipulagsskylt í þeirri merkingu sem lögð er í skipulagsskyldu sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum laganna.

Siglingaöryggi.
    Fyrir nefndinni var fjallað um siglingaöryggi og þá þætti landsskipulagsstefnu sem lúta að því. Í umsögn Samgöngustofu er lögð fram tillaga um að vísað verði til þess í áherslu C.5 að öryggi í siglingum sé forgangsatriði þegar kemur að skipulagi haf- og strandsvæða. Meiri hlutinn bendir á að í 13. tölul. áherslu B.4 kemur fram að á haf- og strandsvæðum verði tryggðar öruggar og greiðar samgöngur og gott aðgengi að höfnum. Í því felst að ákvarðanir um staðbundna nýtingu byggjast á mati á siglingaöryggi.
    Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í minnisblaði frá innviðaráðuneyti og telur ekki forsendur til þess að gera þær breytingar sem lagðar eru til af Samgöngustofu.

Þjóðhagslega mikilvægir innviðir.
    Þriðja lykilviðfangsefni tillögunnar er uppbygging þjóðhagslega mikilvægra innviða. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir sem vörðuðu þennan þátt tillögunnar. Fram kemur í umsögn Landsnets að félagið fagni áherslunni en telur að ganga þurfi lengra og hraðar til aðgerða eigi tillagan að ná markmiði stjórnvalda um málaflokkinn. Þá kemur fram í umsögn Landsvirkjunar að raforkuvinnsla teljist til þjóðhagslega mikilvægra innviða og ætti að gera grein fyrir henni sem slíkri. Auk þess er bent á að orkuvinnslumannvirki séu þjóðhagslega mikilvægir innviðir.
    Meiri hlutinn bendir á að aðgerðum aðgerðaáætlunarinnar er m.a. ætlað að tryggja að ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða nái fram að ganga. Þá verði lagt mat á hvaða innviðir flutningskerfa hafi þjóðhagslegt mikilvægi og leiðir skoðaðar til að einfalda og stuðla að ákvarðanatöku um uppbyggingu og viðhald þeirra. Meiri hlutinn tekur undir það sem segir í greinargerð með tillögunni, að innviðir séu forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi og getur uppbygging þeirra haft áhrif á ólíka hagsmuni sem varða þróun byggðar og landnotkunar.
    Í því samhengi fjallaði nefndin um að hvaða leyti stefnan snýr að orkuöflun. Í minnisblaði frá innviðaráðuneyti segir að tillagan setji ekki stefnu um orkuöflun sem slíka þar sem stefnumótandi ákvarðanir á því sviði séu settar fyrir landið í heild með rammaáætlun. Markmið landsskipulagsstefnu sé að vera leiðbeinandi fyrir stjórnvöld sem sinna skipulagsgerð og ákvarðanir sem teknar eru í samræmi við skipulagslög og er framfylgt af sveitarfélögum í skipulagi.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að setja fram í landsskipulagsstefnu hvernig tryggja eigi stöðu þjóðhagslega mikilvægra innviða með sambærilegum hætti og gert er í löggjöf nágrannaríkja, þ.e. innviða sem lúta að þjóðaröryggi. Með vísan til þessa hvetur meiri hlutinn til þess að lögð verði áhersla á þá vinnu við næstu endurskoðun á lögum um landsskipulagsstefnu.

Áfangastaðastofur.
    Í umsögn Ferðamálastofu segir að í tillögunni sé hvorki minnst á áfangastaðastofur sem umsagnar- eða samstarfsaðila né tekið mið af áfangastaðaáætlunum. Mikilvægt sé að hafa samhljóm í opinberum stefnum og leggur Ferðamálastofa til að áfangastaðastofum verði bætt við stefnuna.
    Í minnisblaði frá innviðaráðuneyti er á það bent að í áherslu C.7 segir að skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu gæti að varðveislu þeirra gæða sem hún byggist á, auk þess sem 7. tölul. áherslunnar felur í sér að skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða taki mið af áfangastaðaáætlunum landshlutanna. Ekki séu öll sveitarfélög með áfangastaðastofur og eru þær svæðisbundnar þjónustueiningar á vegum opinberra aðila og einkaaðila.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins og telur ekki forsendur til þess að gera breytingar að þessu leyti.

Hugtakanotkun og vísanir.
    Í umsögn Grænnar orku er bent á að gæta þurfi betur að hugtakanotkun, bæta við skilgreiningum á hugtökum og gera orðalag skýrara svo að ekki fari á milli mála við hvað sé átt. Það sé ekki síst mikilvægt í ljósi þess að verið er að marka stefnu og þó að sum hugtök séu nátengd eru þau ekki alveg sambærileg. Þá segir í umsögn Vina íslenskrar náttúru að óljóst sé hvers vegna vísað er í ákveðnar áætlanir og leiðbeiningar en aðrar ekki, t.d. sé ekki minnst á Ramsarsamninginn. Í minnisblaði frá innviðaráðuneyti er bent á að stefnan verði gefin út í aðgengilegra formi með nánari skilgreiningum á ákveðnum hugtökum að fenginni samþykkt hennar, auk þess sem horft verði til athugasemda í þeirri vinnu. Með vísan til þessa leggur meiri hlutinn því ekki til breytingar hvað þetta varðar.

Breytingartillögur.
Aðgerð er varðar eigandastefnu ríkisins á ríkisjörðum.
    Bændasamtök Íslands leggja á það áherslu í sinni umsögn að við tillöguna verði bætt nýrri aðgerð sem snýr að því að eigandastefna ríkisins um ríkisjarðir verði uppfærð með það að markmiði að landbúnaðarnot slíkra jarða séu í forgangi auk þess sem skoðaðir verði möguleikar ríkisins til jákvæðra hvata þannig að því markmiði sé náð.
    Í minnisblaði sínu tekur ráðuneytið undir með Bændasamtökunum. Að höfðu samráði við ráðuneytið er því lagt til að aðgerð verði bætt við tillöguna til samræmis við umsögn Bændasamtakanna.
Aðgerðir vegna gerðar strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa (aðgerðir 8 og 9).
    Aðgerðir 8 og 9 varða gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð annars vegar og Skjálfandaflóa hins vegar. Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga er því beint til nefndarinnar að taka til sérstakrar skoðunar samstarfsaðila við framkvæmd aðgerðanna og framsetningu á ábyrgð, með vísan til laga um skipulag haf- og strandsvæða.
    Í 4. gr. framangreindra laga segir að ráðherra fari með yfirstjórn skipulagsmála og að svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags. Hlutverk og skipun svæðisráða er nánar skilgreint í 5. gr. laganna. Í minnisblaði frá innviðaráðuneyti er tekið undir sjónarmið Fjórðungssambands Vestfirðinga og lögð til breyting á aðgerðum 8 og 9 sem hefur það að markmiði að skýra betur í hverju aðgerðirnar felast.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að við framkvæmd aðgerðanna verði farið eftir ákvæðum laga um skipulag haf- og strandsvæða og tekur því undir þær tillögur sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar og leggur til breytingu með vísan til framangreinds.

Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa (aðgerðir 8 og 9).
    Í umsögn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra er gerð athugasemd við að í aðgerðum 8 og 9 sé gert ráð fyrir að vinna hefjist við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa árið 2025. Það sé í ósamræmi við fjárlög 2024 þar sem gert er ráð fyrir að sú vinna hefjist á yfirstandandi ári. Samtökin óska eftir því að þetta ósamræmi sé leiðrétt af nefndinni. Í minnisblaði sínu tekur ráðuneytið undir þá ábendingu og leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis.

Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða (aðgerð 10).
    Með aðgerð 10 aðgerðaáætlunarinnar er stefnt að því að unnin verði greining á því hvaða svæði skuli hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags. Við þá vinnu verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og ráðgefandi aðila samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
    Í umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða kemur fram tillaga um að flýta aðgerð 10 aðgerðaáætlunarinnar til ársins 2024, en samtökin hafa frá árinu 2021 unnið að verkefninu Forsendugreining fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við Byggðaþróun, sem er hluti af aðgerðum sem fram koma í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 (þskj. 1242 á 148. löggjafarþingi). Verkefninu muni ljúka á fyrri hluta þessa árs, en þegar hafi verið framkvæmt stöðumat, gerð sviðsmyndagreining og lagt mat á hagrænt virði Breiðafjarðar. Þá hafi tillögur verið ræddar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og er ein þeirra gerð strandsvæðisskipulags fyrir Breiðafjörð.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að unnið verði áfram við gerð strandsvæðisskipulags fyrir landið og leggur til að aðgerð 10 aðgerðaáætlunarinnar verði flýtt með það að markmiði að vinna hefjist á árinu 2024 við greiningu á því hvaða svæði skuli hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags.

Aðrar breytingar.
    Landgræðslan (nú Land og Skógur) bendir í umsögn sinni á að æskilegt væri að tilgreina betur hvað átt er við með innviðum og hvort verið sé að tala um afhendingaröryggi eða öryggi almennt. Í minnisblaði til nefndarinnar leggur ráðuneytið til samsvarandi breytingu á orðalagi sem meiri hlutinn tekur undir.
    Í umsögn Landsnets til nefndarinnar koma fram ábendingar um orðalag 5. tölul. áherslu B.5, þ.e. að félaginu þyki það ekki endurspegla nægjanlega þær lögbundnu skyldur sem gilda um uppbyggingu flutningskerfisins og taki ekki tillit til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Ráðuneytið tekur undir athugasemdir Landsnets og leggur til breytingar á áherslunni sem meiri hlutinn tekur undir.
    Í umsögn Landverndar eru gerðar athugasemdir við 8. tölul. áherslu C.2 og er á það bent að í liðnum sé talað um vistvænar orkuauðlindir í stað notkunar endurnýjanlegrar orkuframleiðslu. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Landverndar og leggur til breytingu til samræmis.
    Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að stofnunin telji sig eiga erindi sem samstarfsaðila um aðgerð 14 í aðgerðaáætluninni sem lýtur að skipulagi í dreifbýli. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn stofnunarinnar hvað þetta varðar og leggur til breytingu þess efnis.
    Í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka er lögð áhersla á hugmyndafræði algildrar hönnunar, að brýnt sé að huga vel að fjölbreyttum aðstæðum einstaklinga og að skipuleggja þurfi aðgengi fyrir öll. Ráðuneytið tekur undir framangreindar ábendingar í minnisblaði sínu til nefndarinnar. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingar til samræmis.
    Þá leggur meiri hlutinn til tæknilegar breytingar sem þarfnast ekki skýringa.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við kafla III. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR.
                  a.      Í stað orðanna „á lofti, láði og legi“ í 2. málsl. áherslu A.1 komi: í lofti, á láði og legi.
                  b.      Á eftir orðinu „uppgræðslu“ í 8. tölul. áherslu A.3 komi: og endurheimt.
                  c.      Í stað orðanna „Sveitarfélög á miðhálendinu“ í 3. tölul. áherslu B.4 komi: Sveitarfélög sem ná yfir miðhálendið.
                  d.      Við áherslu B.5.
                      1.      Í stað orðsins „öryggi“ í 1. málsl. komi: örugga afhendingu orku.
                      2.      Í stað orðanna „örugga afhendingu raforku“ í 1. málsl. 5. tölul. komi: öruggan flutning og afhendingu raforku.
                  e.      Við 6. tölul. áherslu B.7 bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við útfærslu byggðar og bæjarrýma verði gætt að jafnræði, öryggi og aðgengi ólíkra félags- og getuhópa.
                  f.      Í stað orðanna „vistvænna orkuauðlinda“ í 8. tölul. áherslu C.2 komi: endurnýjanlegrar orkuframleiðslu.
     2.      Við kafla V. AÐGERÐAÁÆTLUN 2024–2028.
                  a.      Í stað ártalsins „2023“ í liðnum Tímabil í aðgerð 1 komi: 2024.
                  b.      Á eftir orðunum „með tilliti til“ í liðnum Verkefnismarkmið í aðgerð 6 komi: náttúru- og landslagsverndar.
                  c.      Liðurinn Stutt lýsing í aðgerð 8 orðist svo: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Eyjafjörð, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Siglunesi í vestri og Bjarnarfjalli í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
                  d.      Liðurinn Stutt lýsing í aðgerð 9 orðist svo: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfandaflóa, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Bjarnarfjalli í vestri og Tjörnestá í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
                  e.      Í stað ártalsins „2026“ í liðnum Tímabil í aðgerð 10 komi: 2024.
                  f.      Í stað orðanna „haf- og strandsvæði“ í 1. málsl. liðarins Stutt lýsing í aðgerð 11 komi: skipulag haf- og strandsvæða.
                  g.      Í stað orðanna „sem minnst“ í 2. málsl. liðarins Stutt lýsing í aðgerð 12 komi: ekki.
                  h.      Á eftir orðunum „Land og skógur“ í liðnum Dæmi um samstarfsaðila í aðgerð 14 komi: Náttúrufræðistofnun Íslands.
                  i.      Við bætist ný aðgerð, svohljóðandi:
                  Landbúnaðarnot ríkisjarða.
                  –     Verkefnismarkmið: Að stuðla að því að verja gott landbúnaðarland sem er í ríkiseigu og í ábúð.
                –     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga fyrir sveitarfélög og Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir um varðveislu landbúnaðarlands í ríkiseigu. Leiðbeiningarnar taki til þess hvernig best sé að vinna að því að landbúnaðarland sem er í ríkiseigu og í ábúð haldi þeirri landnotkun til þess að skapa fyrirsjáanleika og framtíðarsýn ábúanda um nýtingu. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004.
                   –     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
                   –     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
                   –     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir og Bændasamtök Íslands.
                   –     Tímabil: 2026–2027.
                   –     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matvælastefna til ársins 2040 og landbúnaðarstefna til ársins 2040.
                   –     Heimsmarkmið: 8 og 15.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir gerir fyrirvara vegna gerðar landsskipulagsstefnu fyrir miðhálendið. Óljóst sé hvernig stefnumótunin eigi að stuðla að jafnvægi á milli ólíkra ferðamáta á miðhálendinu og er heldur ekki ljóst að hún komi í veg fyrir að samgönguframkvæmdir rýri gildi víðerna og upplifun ferðafólks af miðhálendi Íslands.

Alþingi, 7. maí 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Vilhjálmur Árnason.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.